Evrópski seðlabankinn tilkynnti í gær að stýrivextir yrðu óbreyttir í tveimur prósentum, eins og almennt hafði verið búist við. Stýrivextir hafa því haldist í 2% í 28 mánuði, eða síðan í júní árið 2003.

Verðbólga hefur heldur aukist á evrusvæðinu og er komin yfir 2% verðbólgumarkmið bankans; náði 2,5% á ársgrundvelli í september og hækkaði úr 2,2% í ágúst, en engu að síður ákvað bankinn að hækka ekki stýrivextina.

Jean-Claude Trichet, forstjóri bankans, notaði engu að síður sterkara orðalag en fyrr er stýrivaxtastigið var tilkynnt. Hann notaði orðið "ákveðið" (e. "strong") þegar hann lýsti viðhorfi bankans til þess að halda verðbólgunni niðri, í staðinn fyrir "sértækt" (e. "particular"). Verðbólga undanfarinna mánuða er rakin til hækkandi olíuverðs.