Seðlabanki Ástralíu lækkaði stýrivexti um 25 punkta í dag og fór vaxtastig við það úr 4,75% í 4,5%. Seðlabankinn hefur ekki lækkað stýrivexti í tvö ár.

Bloomberg-fréttastofan segir ástæðuna fyrir vaxtalækkuninni þá að seðlabankinn ástralski hafi áhyggjur af því að skuldakreppan á evrusvæðinu hafi neikvæð áhrif á útflutning frá Asíu. Því til staðfestingar greindu stjórnvöld í Suður-Kóreu frá því að útflutningur hafi ekki aukist jafn lítið í tvö ár.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti einmitt endurskoðaða hagspá í gær þar sem almennt er því spáð að hagvöxtur verði minni en áður var búist við. Þótt vöxturinn verði mikill í Kína á næstu árum verður hann minni en gert hefur verið ráð fyrir, að mati OECD.

Fjárfestar í Austurlöndum hafa áhyggjur af skuldakreppunni og afleiðingum hennar. Áhyggjurnar beinast ekki síður að Bandaríkjunum en þar veldur mikið atvinnuleysi því að kaupmáttur og einkaneysla hefur dregist saman. Það bitnar sömuleiðis á útflutningi frá Asíu, ekki síst Kína.