Þrátt fyrir að fara þurfi aftur til miðrar 19. aldar til að finna jafn langt hagvaxtarskeið í Bandaríkjunum og að hlutabréfamarkaðir þar í landi séu í hæstu hæðum lækkaði peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna nú rétt í þessu stýrivexti sína um 0,25 prósentustig í 2,25%. Þá greindi nefndin einnig frá því að seðlabankinn muni hætta að vinda ofan af skuldabréfa eign sinni sem nemur nú um 3.800 milljörðum dollara í ágúst, tveimur mánuðum fyrr en upphaflega var áætlað.

Er þetta í fyrsta sinn sem stýrivextir eru lækkaðir í Bandaríkjunum í rúman áratug eða frá fjármálakrísunni árið 2008. Seðlabankinn hefur frá því í desember 2015 til desember 2018 hækkað vexti sína úr 0% í 2,5% og markar ákvörðunin því viðsnúning í peningastefnu bankans. Vaxtaákvörðunin kom þó ekki mikið á óvart en staða vaxtaskiptasamninga hafði bent til þess að 80% líkur væru á 25 punkta lækkun og 20% líkur væri á meiri lækkun.

Þrátt fyrir að búist hafi verið við lækkuninni þykir hún þó athyglisverð. Hagvöxtur í Bandaríkjunum nam 2,1% á öðrum ársfjórðungi þessa árs sem var umfram væntingar greiningaraðila auk þess sem atvinnuleysi í landinu hefur ekki verið lægra í 50 ár. Þá nam verðbólga 1,6% á síðustu 12 mánuðum í júní sem er einungis 0,4 prósentustigum frá 2% verðbólguviðmiði seðlabankans.

Jerome Powell hefur verið undanfarið verið undir töluverðum þrýstingi frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna um að lækka vexti og hefur Trump jafnvel gengið svo langt að kalla eftir að vextir verið lækkaðir um heilt prósentustig. Afskipti forsetans af peningamálum eru nær fordæmalaus en fyrri forsetar Bandaríkjanna hafa til þessa forðast að hlutast til um stjórn peningamála í landinu.

Þeir sem hafa talað fyrir vaxtalækkun hafa nefnt að hún muni örva hagkerfi Bandaríkjanna en gagnrýnendur hennar hafa bent á að ákvörðunin muni hafa lítil sem enginn áhrif en vegi að trúverðugleika og sjálfstæði peningastefnunefndarinnar þar sem hún sé til þess fallin að þóknast forsetanum.

Nánar er fjallað vaxtastig í Bandaríkjunum og Evrópu í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .