Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 3,25%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum lækka í 4,0%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 4,25% og daglánavextir lækka í 5,25%.

Yfirlýsing peningastefnunefndar:


„Áfram dró úr verðbólgu í desember og janúar. Tólf mánaða verðbólga var 1,8% í janúar eða 1,6% að áhrifum hærri neysluskatta frátöldum. Hún er því nokkuð undir 2½% verðbólgumarkmiði bankans. Tilfallandi verðlækkanir bættust við árstíðarbundna lækkun vísitölu neysluverðs í janúar. Sem fyrr stuðla hagstæð gengisþróun undanfarið ár, lækkandi verðbólgu­væntingar og slaki í þjóðarbúskapnum að lítilli og stöðugri verðbólgu.

Samkvæmt spánni sem birt er í Peningamálum í dag, verður efnahagsbatinn heldur meiri í ár en Seðlabankinn spáði í nóvember. Spáð er 2,8% hagvexti í ár og liðlega 3% vexti á árunum 2012 og 2013. Verðbólga hefur verið heldur minni en fólst í nóvemberspánni, aðallega vegna einskiptisáhrifa breytinga á opinberum gjöldum, og er því spáð að hún verði eitthvað undir verðbólgumarkmiðinu nánast til loka spátímans.

Þótt grunnefnahagsþættir og gjaldeyrishöft styðji áfram við gengi krónunnar hefur viðskiptavegið gengi krónu lækkað um 4½% frá fundi peningastefnunefndar í desember. Enn er of snemmt að fullyrða að hve miklu leyti lækkunina megi rekja til tímabundinna þátta. Umtalsverð kaup Seðlabankans á gjaldeyri undir lok síðasta árs, sem ætlað var að draga úr gjaldeyrismisvægi fjármálastofnana og auka óskuldsettan gjaldeyrisforða Seðlabankans, gætu einnig hafa haft skammtímaáhrif á gengi krónunnar.

Þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa einnig óvissu til skemmri tíma. Peningastefnunefndin er reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.“