Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 2,75%.

Í tilkynningu frá nefndinni segir að vísbendingar séu um að hagvöxtur í fyrra hafi verið heldur meiri en áður var talið en horfur fyrir þetta og næsta ár versna samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála. Þar er gert ráð fyrir 0,8% hagvexti á árinu en í nóvemberspá bankans var gert ráð fyrir 1,6% vexti á árinu.

Verðbólga minnkaði hratt er leið á síðasta ár og var komin í verðbólgumarkmið á síðasta fjórðungi ársins. Hún hélt áfram að minnka í janúar og var 1,7% sem er minnsta verðbólga sem mælst hefur síðan haustið 2017. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað og er nú við verðbólgumarkmið eins og flestir mælikvarðar á verðbólguvæntingar. Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans verður verðbólga minni en spáð var í nóvember og verður undir markmiði á meginhluta spátímans.

Taumhald peningastefnunnar, eins og það er mælt með raunvöxtum bankans, hefur því heldur aukist frá síðasta fundi nefndarinnar. Hækkun vaxtaálags á lánsfjármögnun fyrirtækja hefur aukið taumhaldið enn frekar.