Seðlabanki Taívan lækkaði óvænt stýrivexti í dag um 25 punkta og tekur lækkunin gildi á morgun, mánudag.

Vaxtalækkunin er sú fjórða sem bankinn stendur fyrir í rúmann mánuð. Þrengt hefur verulega að efnahagskerfi Taívan undanfarið og er stýrivaxtalækkun seðlabankanns liður í baráttunni við alþjóðlegu fjármálakreppuna, en Taívan reiðir sig mjög á útflutning.

Stýrivextir í Taívan eru nú 2,75% en það er lægsta gildi stýrivaxta þar síðan í mars 2007.

Reuters fréttaveitan segir frá því að vaxtalækkunin í Taívan komi í kjölfar þess að stærstu fyrirtæki Taívans, sem flest eru tæknifyrirtæki sem reiða sig á útflutning, birtu verstu afkomutölur í þrjú og hálft ár, fyrir síðasta ársfjórðung.

Stutt er síðan Englandsbanki og Seðlabanki Evrópu lækkuðu stýrivexti af svipuðum ástæðum.