Samkvæmt nýrri spá greiningar KB banka um þróun stýrivaxta Seðlabanka Íslands munu stýrivextir að öllum líkindum hækka um 50 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 16. ágúst næstkomandi og aftur þann 14. september sem mun vera síðasta vaxtahækkun bankans í þessari hagsveiflu. Alls er því gert ráð fyrir að bankinn hækki vexti um 100 punkta í viðbót en stýrivextir verði óbreyttir á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Stýrivextir nái því hámarki sínu í september og verði þá 14%.

Greining KB banka gerir ráð fyrir að vaxtalækkunartímabil Seðlabankans hefjist á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og að það muni taka bankann rúmlega ár að ná vöxtum niður um sjö prósentur og munu vextir bankans standa í 7% í byrjun annars ársfjórðungs 2008. Til samanburðar nefnir greining KB banka að í síðustu niðursveiflu hafi það tekið Seðlabankann tvö ár að lækka vexti um 6,1 prósentur. Þá fóru vextir úr 11,4% í mars 2001 niður í 5,3% í mars 2003.