Peningastefnunefnd hefur ákveðið að halda meginvöxtum Seðlabankans, vöxtum á sjö daga bundnum innlánum, óbreyttum í 0,75%. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bankans .

Ákvörðunin er í takt við spár stóru bankanna þriggja , sem allir höfðu búist við óbreyttum vöxtum. Vextir hafa nú verið óbreyttir síðan í nóvember, og aðeins breyst um 0,25% síðan í maí í fyrra þegar þeir voru lækkaðir í 1% vegna faraldursins.

Arion banki og Íslandsbanki spá óbreyttum vöxtum fram á næsta ár, en í spá Landsbankans er ekki tiltekið hvenær búist sé við breytingum. Þar er því þó spáð að næsta breyting verði til hækkunar.

Minni samdráttur í fyrra og hægari hjöðnun verðbólgu
Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að hagsamdráttur hafi mæst nokkuð lægri, 6,6%, í nýbirtum þjóðhagsreikningum en Seðlabankinn hafi sjálfur gert ráð fyrir í febrúarspá sinni, 7,7%. Bæði hafi samdráttur fyrstu þriggja ársfjórðunga í fyrra mælst minni en bráðabirgðatölur hafi bent til, og síðasti fjórðungur ársins reynst kröftugri í efnahagslegu tilliti en spáð hafi verið.

Vísbendingar séu ennfremur um áframhaldandi efnahagsbata það sem af er þessu ári, en þróun mála velti að miklu leyti á framvindu faraldursins og gangi bólusetninga. Óvissa sé því áfram mikil.

Næst er vikið að verðbólgu, sem hjaðnaði á ársgrundvelli í febrúar og mælist nú 4,1%. Áhrif gengisveikingarinnar í fyrra séu farin að fjara út, enda hafi hún gengið að miklu leyti til baka. Áfram sé því gert ráð fyrir að verðbólgan gangi niður þegar líður á árið, þrátt fyrir hækkanir olíu- og hrávöruverðs, kostnaðarhækkanir vegna faraldursins og smávægilega hækkun verðbólguvæntinga.

Fréttin hefur verið uppfærð.