Seðlabanki Noregs tilkynnti í dag að stýrivextir þar í landi myndu haldast óbreyttir í 5,5%. Allir greiningaraðilar höfðu spáð þeirri niðurstöðu, að því er Bloomberg segir frá.

Í Vegvísi Landsbankans segir að verðbólga í Noregi hafi aukist töluvert síðustu sex mánuði og nú sé undirliggjandi verðbólga yfir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans. „Seðlabankinn hefur þó gefið vísbendingar um hækkun stýrivaxta um 25 punkta á þessu ári til að stemma stigu við hækkandi launakostnað sem hefur verið að fóðra verðbólguna," segir í Vegvísi.

Merki eru um kólnun í norska hagkerfinu sem hefur annars vaxið hratt á síðustu árum Fasteignamarkaðurinn hefur tekið að gefa eftir auk þess sem  hækkandi matvæla- og eldsneytisverð hefur kynt undir verðbólgu víða um heim.

Næsta skipulagða stýrivaxtaákvörðun í Noregi verður þann 25. júní næstkomandi.