Peningastefnunefnd Seðlabanka Evrópu hefur ákveðið að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum, að því er fram kemur á BBC . Í júní greip peningastefnunefndin til róttækra aðgerða til að örva hagvöxt á evrusvæðinu og lækkaði stýrivexti úr 0,25% í 0,15%, auk þess sem teknir voru upp neikvæðir vextir á innistæður.

Mario Draghi seðlabankastjóri sagði í dag að stýrivöxtum yrði haldið í 0,15% um óákveðinn tíma vegna lágrar verðbólgu. Verðbólga á evrusvæðinu mældist 0,5% í júní en verðbólgumarkmiðið er 2%.

Einnig var tilkynnt að frá og með byrjun næsta árs verði vaxtaákvarðanir kynntar á sex vikna fresti, í stað mánaðarlega eins og verið hefur.