Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 1%. Vextir bankans hafa aldrei verið jafn lágir en þeir stóðu í 2,75% í upphafi árs og 4,5% í apríl á síðasta ári.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála eru horfur á að landsframleiðslan dragist saman um 7% í ár og útlit er fyrir að atvinnuleysi verði komið í um 10% undir lok ársins. Þetta er minni samdráttur en hafði verið gert ráð fyrir í maí. Þar vegur þyngst að einkaneysla var kröftugri í vor og sumar.

Samkvæmt spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólga verði í kringum 3% það sem eftir lifir árs. Því er spáð að hún muni hjaðna á næsta ári vegna slaka í þjóðarbúinu auk lágri alþjóðlegri verðbólgu.

Klukkan 10:00 á eftir hefst vefútsending þar sem greint verður nánar frá yfirlýsingu peningastefnunefndar, vaxtaákvörðunar og Peningamála sem birtist rétt í þessu. Að öllu óbreyttu mun næsta vaxtaákvörðun fara fram 7. október næstkomandi.