Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 1%. Frá þessu greinir Seðlabankinn á vef sínum. Í upphafi árs voru stýrivextir bankans þrjú prósent.

Þar kemur fram að hagvöxtur hafi verið þróttmeiri á fyrri hluta þessa árs en gert var ráð fyrir í ágústhefti Peningamála. Hins vegar séu vísbendingar um að hægst hafi á vexti eftirspurnar í lok sumars. „Vegna aukinnar útbreiðslu veirunnar að undanförnu hafa efnahagshorfur versnað frá því sem gert var ráð fyrir í ágúst. Óvissan er hins vegar mikil og þróun efnahagsmála mun að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar,“ kemur enn fremur fram í tilkynningunni.

Sagt er frá því að verðbólga hafi vaxtið hraðar en var spáð í ágúst en hún nam 3,2% í lok þriðja fjórðungs. Verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma hafa hins vegar lítið breyst og virðist kjölfesta þeirra í verbólgumarkmiði bankans halda.

Klukkan 10.00, hefst svo vefútsending þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, gera nánari grein fyrir yfirlýsingunni og ákvörðun nefndarinnar.