Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti í dag að bankinn hefði ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum en þeir eru 2%.

Lét bankinn í ljós áhyggjur af verðbólgu og auknum lánakostnaði. Bankinn hefur ekki sagt neitt um framtíðar stýrivaxtabreytingar.

Ákvörðun Seðlabankans um að viðhalda stýrivöxtum í 2% kemur ekki á óvart að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en greiningaraðilar vestanhafs höfðu þegar gert ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum.

Ákvörðun þessi var tekin eftir tveggja daga fundarhöld Seðlabankans þar sem efnahagshorfur voru ræddar. Sérfræðingar bankans búast þó við að verðbólga taki að hjaðna undir lok árs og í byrjun þess næsta.