Á vaxtaákvörðunardegi seðlabankans í Bandaríkjunum í gær var tekin sú ákvörðun að halda stýrivöxtum óbreyttum. Miðað við langtímaspár er enn talið að vextir muni hækka á þessu ári en vegna meiri óvissu virðist bankinn vilja stíga varlega til jarðar.

Er það vegna hægari vaxtar nýrra starfa í landinu heldur en búist var við en einnig vegna óstöðugleika á heimsmarkaðnum, eins og vegna mögulegrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkaði

Eru stýrivextirnir á bilinu 0,25 - 0,5% líkt og þeir hafa verið síðan þeir voru hækkaðir frá nálega núlli í desember. Þó enn séu væntingar um að vextir verði hækkaðir á árinu hefur dregið úr væntingum um hækkanir árin 2017 og 2018.

Hlutabréfamarkaðurinn tók kipp við ákvörðunina þó hann endaði á að vera á svipuðum stað og áður. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa féll og varð ávöxtunarkrafa 10 ára skuldabréfa nálægt sínu lægsta síðan árið 2012.