Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum áfram í 4,5%.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sé gert ráð fyrir að töluvert hægi á hagvexti í ár og að hann verði 1,8%. Þetta er um 1 prósentu minni vöxtur en bankinn gerði ráð fyrir í nóvember og gangi það eftir yrði það minnsti hagvöxtur sem mælst hefur frá árinu 2012. Hægari vöxtur stafar einkum af samdrætti í ferðaþjónustu. Horfur séu á að spenna í þjóðarbúskapnum minnki hraðar en áður var talið.

„Verðbólga jókst eftir því sem leið á síðasta ár og mældist 3,7% í desember sl. Áhrif hækkunar innflutningsverðs vegna gengislækkunar krónunnar á haustmánuðum síðasta árs vega þar þyngst. Þótt verðbólga hafi minnkað í 3,4% í janúar og gengi krónunnar hækkað frá desemberfundi peningastefnunefndar eru horfur á að verðbólga aukist fram eftir ári og verði yfir markmiði fram á seinni hluta næsta árs," segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Þá er bent á að verðbólguvæntingar markaðsaðila og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hafa lækkað frá desemberfundinum. Taumhald peningastefnunnar, eins og það mælist í raunvöxtum Seðlabankans, hafi því aukist á ný. Þá muni peningastefnan á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við markmið til lengri tíma litið. „Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, munu skipta miklu um hvort svo verður og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.