*

þriðjudagur, 15. október 2019
Erlent 2. maí 2019 11:14

Stýrivextir óbreyttir í óþökk Trump

Bandaríski Seðlabankinn heldur stýrivöxtum óbreyttum. Verðbólga mælist undir markmiði þrátt fyrir öflugan vöxt.

Ritstjórn
Jerome Powell tók við stjórn Seðlabankans í febrúar í fyrra. Donald Trump hefur verið heldur ósáttur með störf hans þrátt fyrir að hafa skipað hann, og hefur gagnrýnt Powell og bankann opinberlega.
epa

Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum. Verðbólga hefur staðið á sér vestra þrátt fyrir nokkuð kröftugan hagvöxt og tiltölulega lítið atvinnuleysi. Financial Times greinir frá.

Meginvextir seðlabankans eru nú 2,25-2,5%. Ákvörðunin kom fáum á óvart, fjármálamarkaðir höfðu gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum. Vextirnir höfðu verið rétt við núllið allt frá fjármálakrísunni 2008, en fyrir um tveimur árum hóf bankinn að hækka þá, og á síðasta ári voru þeir hækkaðir fjórum sinnum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið gagnrýninn á það sem hann kallar óhóflegt aðhald seðlabankans, og seðlabankastjórans, Jerome Powell, sem Trump skipaði sjálfur á síðasta ári. Þrátt fyrir mikinn þrýsting frá forsetanum hefur hinsvegar engan bilbug verið að finna á Powell.

Haft er eftir seðlabankastjóranum að peningastefnunefnd sjái hvorki sterk rök fyrir hækkun né lækkun vaxta eins og staðan er í dag. Hagvöxtur mælist 3,2%, atvinnuleysi 3,8%, og helstu áhættuþættir í þróun efnahagsmála á næstunni – staðan í Kína og á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum – hafa verið að snúast til betri vegar nýverið.

Þrátt fyrir það hefur vöxtur eftirspurnar verið slælegur síðustu misseri, og verðbólga mælist aðeins 1,6%, og er því töluvert undir 2% markmiði bankans. Powell benti hinsvegar á sterkar undirstöður hagkerfisins og sagði hugsanlegt að tímabundnir áhrifaþættir héldu verðbólgunni niðri.