Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum í 5,25%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Seðlabankinn segir að raunvextir bankans hafi hækkað að undanförnu sökum hjöðnunar verðbólgu og verðbólguvæntinga. Þeir séu nokkuð háir í ljósi stöðu hagsveiflunnar og nærhorfa. Lækkun alþjóðlegs eldsneytisverðs sé hins vegar utan áhrifasviðs peningastefnu hér á landi auk þess sem sú minnkun verðbólgu sem af henni leiðir sé tímabundin. Við ákvörðun vaxta sé því ekki hægt að taka fullt tillit til hjöðnunar verðbólgu sem af henni stafar.

„Af þessum sökum telur peningastefnunefndin rétt að staldra við uns efnahagshorfur skýrast frekar, einkum varðandi launaþróun,“ segir í tilkynningu.