Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að breyta ekki stýrivöxtum að þessu sinni. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að verðbólguhorfur hafi versnað til skamms tíma og raunstýrivextir lækkað. Sömuleiðis séu horfur á meiri slaka í ríkisfjármálum en áður.

„Verðbólga hefur aukist undanfarna fjóra mánuði. Tólf mánaða verðbólga mældist 3,4% í maí og er gert ráð fyrir að verðbólga verði áfram nokkuð mikil út næsta ár. Hins vegar er kjarnaverðbólga við verðbólgumarkmiðið. Meiri verðbólga skýrist m.a. af lágu gengi krónunnar og nýlegum verðhækkunum hrá- og olíuvöru. Haldist gengi krónunnar stöðugt og að því marki sem verðhækkanirnar reynast tímabundnar er ólíklegt að þær hafi langvarandi áhrif á verðbólgu.

Miðað við núverandi gengi krónunnar virðast hins vegar launahækkanir sem felast í nýgerðum kjarasamningum vera meiri en samræmist verðbólgumarkmiðinu til lengdar. Þegar efnahagsbatinn færist í aukana gæti launaþrýstingur frá útflutningsgeiranum leitt til aukinna langtímaverðbólguvæntinga. Til þess að draga úr líkum á því að það gerist gæti reynst nauðsynlegt að auka aðhald peningastefnunnar á næstunni, en ákvarðanir í peningamálum munu sem fyrr taka mið af nýlegri þróun og horfum.

Peningastefnunefndin er reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið,“ segir í yfirlýsingu Peningastefnunefndar.