Stýrivextir Seðlabankans verða óbreyttir næsta mánuðinn samkvæmt ákvörðun peningastefnunefndar sem tilkynnt var rétt í þessu. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir:

Nýjustu hagtölur staðfesta í meginatriðum uppfærða spá bankans, sem birtist í Peningamálum í ágúst, þ.e.a.s. að vöxtur framleiðslu og atvinnu sé hafinn og að horfur séu á að verðbólga muni um nokkurt skeið verða töluvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, styrkist gengi krónunnar ekki að ráði, en að hún hnígi aftur að markmiði til lengri tíma litið.

Hræringar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vísbendingar um veikari alþjóðlegan hagvöxt skapa óvissu um innlendan hagvöxt og verðbólguhorfur. Hætta á neikvæðum áhrifum á innlendan þjóðarbúskap hefur aukist frá fundi peningastefnunefndar í ágúst.

Verðbólguhorfur benda þó til þess að til lengri tíma litið sé við hæfi að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar, eins og byrjað var á í ágúst. Lítil hætta er á að hófleg vaxtahækkun stöðvi efnahagsbatann. Minni verðbólga í ágúst en búist hafði verið við, áframhaldandi styrking gengis krónunnar og lakari horfur í heimsbúskapnum gera peningastefnunefndinni hins vegar kleift að halda vöxtum óbreyttum nú.

Nefndin telur enn að til þess að sporna gegn aukinni verðbólgu kunni að vera nauðsynlegt að hækka vexti frekar. Ákvarðanir í peningamálum munu þó sem fyrr taka mið af nýlegri þróun og horfum. “