Seðlabanki Íslands tilkynnti í gær að hann hefði ákveðið að hækka stýrivexti um 125 punkta, upp í 15%. Um leið breytti hann reglum í því augnamiði að liðka fyrir viðskiptum á fjármálamörkuðum; rýmkaði reglur um tæk veð í viðskiptum við bankann, lækkaði bindiskyldu fyrir banka með útibú erlendis og tilkynnti að hann hygðist gefa út ný trygg verðbréf til skamms tíma.

Talsmenn stóru viðskiptabankanna þriggja eru á einu máli um að reglubreytingar bankans séu af hinu góða. Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir að Seðlabankinn sé með „augun á boltanum“ og þær heildarbreytingar sem hann gerði á umgjörð markaðarins séu jákvæðar.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, tekur í sama streng og segir að Seðlabankinn sýni með þessari hækkun að honum sé alvara með halda krónunni sterkri og þar með að slá á verðbólguna.

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur Kaupþings, segir að reglubreytingar Seðlabankans séu „ágætar.“ Hann segir þó að líklega hafi stýrivaxtahækkunin ekki mikil áhrif á gengi krónunnar núna, til styrkingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .