Seðlabanki Íslands birti rétt í þessu vaxtaákvörðun sína, en niðurstaða peningastefnunefndar er að lækka Stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum verða því 5,25%.

Næsti vaxtaákvörðunardagur verður 5. október, og næstu tveir eftir það eru svo 16. nóvember og 14. desember.

Meiri hagvöxtur en spáð

Byggir ákvörðunin á því að horfur séu á því að hagvöxtur í ár verði nokkru meiri en spáð var í maí, eða 4,9% og er gert ráð fyrir áframhaldandi örum vexti á næsta ári.

Þakkar nefndin aðhaldsamri peningastefnu sem hafi haldið aftur af lansfjáreftirspurn og stuðlað að auknum sparnaði, og þannig rennt stoðum undir meiri viðskiptaafgang og hækkun krónunnar.

Minni verðbólga

Peningastefnan hafi því, ásamt hagstæðum ytri aðstæðum, leitt til minni verðbólgu og að verðbólguvæntingar eru nálægt markmiðum.

Auk aðhaldsamrar peningastefnu, hafi viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga og hækkun gengis krónunnar vegið á móti áhrifum launahækkana á verðlag.

Ekki þörf á jafnháum vöxtum til að halda verðbólgu við markmið

Því telur nefndin að hægt verði að halda verðbólgu við markmið til miðlungslangs tíma litið með lægri vöxtum en áður var talið.

Hún hafi haldist undir markmiði um tveggja og hálfs árs skeið, þrátt fyrir launahækkanir og aukna framleiðsluspennu, en í júlí mældist hún 1,1% og hefur ekki mælst minni frá ársbyrjun 2015.