Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir bankans verði óbreyttir, þ.e. 13,75%. Verðbólguspá, sem birt var í Peninga­málum í nóvember sl., fól í sér óbreytta stýrivexti fram yfir mitt næsta ár.

Verðbólga varð meiri sl. tvo mánuði en búist var við og er nú nokkru meiri en samrýmist verðbólguspá bankans í nóvember. Eftir­spurn jókst hraðar á þriðja fjórðungi ársins en áætlað var og vís­bendingar eru um svipaða framvindu á yfirstandandi fjórðungi. Verð­bólguhorfur til skamms tíma eru því lakari en við síðustu vaxta­ákvörðun. Hins vegar hefur ekki orðið afgerandi breyting á verðbólgu­horfum sé litið til lengri tíma.

Skilyrði á erlendum fjármálamörkuðum hafa enn versnað. Vegna þess og hárra stýrivaxta hafa innlendir vextir hækkað verulega frá síðustu vaxtahækkun bankans og framboð lánsfjár dregist saman. Vextir verðtryggðra langtímaskuldabréfa, sem lengi tóku lítt mið af auknu peningalegu aðhaldi, hafa hækkað skarpt í ár, ekki síst eftir síðustu hækkun stýrivaxta. Verð hlutabréfa hefur einnig lækkað verulega undanfarna mánuði sem eykur fjármagnskostnað fyrirtækja og veikir efnahagsreikning þeirra og heimilanna. Þessi þróun leiðir væntanlega til lækkunar á verði fasteigna á næstu misserum eins og þegar hefur orðið víða erlendis. Slík framvinda mun hafa bein áhrif á verðbólgu í gegnum húsnæðislið vísitölunnar og óbein áhrif vegna minni inn­lendrar eftirspurnar.

Óhagstæð fjármálaskilyrði og lækkun eignaverðs munu draga úr eftir­spurn og verðbólguþrýstingi. Á móti gæti komið lækkun á gengi krón­unnar sem enn er hátt í langtímasamhengi. Áframhaldandi styrkur krónunnar er háður vilja erlendra fjárfesta til að nýta vaxtamun og þar með að fjármagna viðskiptahallann. Hann hefur minnkað hraðar en búist var við en undirliggjandi halli er enn mikill.

Bankastjórn Seðlabankans telur að langtímaverðbólguhorfur sem birtust í Peningamálum í nóvember hafi enn ekki breyst svo óyggjandi sé. Á móti meiri verðbólgu til skamms tíma og meiri framleiðslu­spennu vega kröftug áhrif vaxtahækkunarinnar 1. nóvember sl. á aðra innlenda vexti, ekki síst verðtryggða, og aðhaldsáhrif versnandi skil­yrða á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Þessi skilyrði munu án efa leiða til hjöðnunar innlendrar eftirspurnar. Bankastjórnin telur að með óbreyttum stýrivöxtum nú megi ná verðbólgumarkmiðinu innan svipaðs tíma og fólst í grunnspánni sem kynnt var í Peningamálum í nóvember sl., þ.e. um miðbik ársins 2009.

Óhagstæðari gengis- og launaþróun en fólst í grunnspánni í nóvember gæti tafið fyrir hjöðnun verðbólgu. Viðræður um kjarasamninga standa yfir. Aukin verðbólga auðveldar ekki það verk sem er snúið fyrir. Enn sjást þess ekki ótvíræð merki að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði. Afleiðingin gæti orðið óhagstæðari launaþróun gagn­vart verðbólgu en spáð var í nóvember. Verði niðurstaðan sú eða verð­bólguhorfur versna af öðrum ástæðum mun bankastjórnin bregðast við.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um stýrivexti verður til­kynnt 14. febrúar 2008.