Seðlabankinn mun líklega bregðast við verðbólguhorfum með hækkun stýrivaxta um 0,5 prósentustig samhliða útgáfu Peningamála, ársjórðungsrits síns, eftir lokun markaða 2. desember næstkomandi segir í Markaðsyfirliti Íslandsbanka. Þar er bent á að Seðlabankinn hefur þegar brugðist við verðbólguhættu með hækkun stýrivaxta úr 5,3% í 7,25% á þessu ári eða frá því hann hóf vaxtahækkunarferli sitt í maí síðastliðnum.

Íslandsbankamenn telja að útlit sé fyrir framhald á hækkun vaxta og þeir hafa spáð því um nokkra hríð að stýrivextir Seðlabankans muni fara hæst í 8,5% um miðbik næsta árs. "Í ljósi þróunar í efnahagsmálum höfum við nú endurskoðað þessa spá og teljum að stýrivextir bankans muni vera tæplega 9% að meðaltali á næsta ári og um 9,4% að meðaltali árið 2006. Í spánni fara stýrivextir hæst í 10% í lok næsta árs. Reikna má með því að bankinn haldi vöxtum sínum í 10% a.m.k. fram yfir miðbik ársins 2006. Ef gengi krónunnar hækkar aftur á móti meira á næstunni dregur úr þörf á frekari stýrivaxtahækkun og líkum á að spá þessi rætist. Nákvæm tímasetning á því hvenær bankinn muni hefja vaxtalækkunarferli er einnig háð mikilli óvissu um m.a. frekari stóriðjuframkvæmdir og almenna þróun efnahagsmála næstu 2-3 árin," segir í Markaðsyfirlitinu.

Þar er einnig bent á að samhliða hækkun stýrivaxta hafa vextir á innlendum peningamarkaði hækkað, munur á innlendum og erlendum skammtímavöxtum aukist og gengi krónunnar hækkað. "Endurskoðuð stýrivaxtaspá til hækkunar leiðir af sér spá um meiri mun á innlendum og erlendum skammtímavöxtum og stuðning við krónuna. Á skuldabréfamarkaði má reikna með hærri ávöxtunarkröfu fyrir vikið á styttri enda óverðtryggða vaxtaferilsins. Á lengri endanum er líklegt að áhrifin séu minniháttar," segir í Markaðsyfirlitinu.