Gengi hlutabréfa lækkaði almennt á mörkuðum í Asíu í nótt eftir að Janet Yellen, aðalseðlabankastjóri bandaríska seðlabankans, gaf í skyn að stýrivextir bankans verði hugsanlega hækkaðir á næsta ári. Vextirnir verða hækkaðir um hálfu ári eftir að bankinn hættir stuðningi sínum við efnahagslífið sem hefur falist í reglulegum kaupum á skuldabréfum.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins ( BBC ) af málinu segir að margir fjárfestar hafi búist við því að stýrivöxtum verði haldið lágum í lengri tíma.

Nikkei-hlutabréfavísitalan á markaði í Japan lækkaði um 1,65% í nótt. Bæði Hang Seng-vísitalan í kauphöllinni í Hong Kong og SCI-vísitalan í Sjanghaí lækkuðu um rúmt prósent.