Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 1% frá og með 7. desember í 8,25% sem er óvenju mikil hækkun á einu bretti. Seðlabankinn hefur þá hækkað stýrivexti sína um 2,95% síðan í maí. Birgir Ísleifur Gunnarsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans segir ljóst að verðbólguspá bankans eins og hún lítur út nú sé hærri en viðmið bankans og með hækkuninni væri verið að stíga skref til að koma í veg fyrir að sú spá rætist. "Við erum að sjá tölur um aukinn þrýsting hér og þar í þjóðfélaginu. Við gerum ráð fyrir að einkaneysla aukist, áframhaldandi hækkun verði á húsnæðisverði, lánveitingar til einstaklingar eru að vaxa mikið, skattahækkanir séu framundan og stóriðjuframkvæmdir eru meiri en áætlað var," segir hann í Viðskiptablaðinu í dag.

Einnig segir Birgir Ísleifur að mikil framleiðsluspenna sé til staðar. "Framleiðsluspenna, sem er munurinn á milli framleiðslugetu og raunverulegrar framleiðslu, og kyndir undir verðbólgu, er til staðar og eykst á næsta ári og enn meira á árinu 2006 þannig að við töldum nauðsynlegt að stíga þetta skref núna," segir hann.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir að 1% hækkun stýrivaxta sé töluvert meira en búist hafi verið við. "Hækkunin er í takt við væntingar okkur við en við gerum ráð fyrir að stýrivextir Seðlabankans fari upp í 10% fyrir lok næsta árs. Seðlabankinn er að stíga á bremsuna," segir hann.

Rúm lausafjárstaða dregur úr áhrifum vaxtahækkana Seðlabankans en dregið verður úr innkaupum bankans á gjaldeyrismarkaði. Bankinn hefur keypt 2,5 milljónir bandaríkjadala tvisvar í viku en nú verður það einungis gert einu sinni í viku. "Við munum kaupa bandaríkjadali eingöngu í því skyni að þjóna ríkissjóði til að greiða niður lán og vexti. Við höfum sett töluvert af krónum á markaðinn í gegnum þessi gjaldeyriskaup. Við reiknum með að aðgerðir okkar þrengi að lausafjárstöðunni og að vextir okkar virki betur en áður," segir Birgir Ísleifur.

Ingólfur segir að hækkunin sjáist í hækkun gengis krónunnar og hækki vexti stuttra óverðtryggðra skuldabréfa. Lausafjárstaða bankanna hefur verið góð að undanförnu og því hafa vaxtahækkanir bankans haft minni áhrif en ella en hann segir áhrif hækkunarinnar verði vart strax á morgun.

Í Peningamálum Seðlabankans segir að verulegar líkur séu á að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi. Allt leggi þetta á eitt um að ýta undir meiri þenslu og það með meiri verðbólguþrýsting en horfur voru á þegar að Seðlabankinn hóf að hækka vexti í maí.

Ingólfur tekur undir orð Seðlabankans um að hagstjórnin sé röng, ríkið og sveitarfélögin beri of lítinn hlut í þeim stóru fjárfestingum sem framundan eru. Einnig gerir Ingólfur ráð fyrir að áframhaldandi hækkun húsnæðisverð sem gæti numið tveggja stafa tölu komi til með að vega þungt í verðbólgunni á næsta ári.