Stýrivöxtum í Japan var viðhaldið óbreyttum sjöunda mánuðinn í röð. Methækkanir urðu á hlutabréfum í kauphöllinni í Tókýó og japanska jenið veiktist mikið gagnvart hávaxtamyntum, sökum aukinnar áhættusækni fjárfesta. Óvissa ríkir um næstu vaxtahækkun Japansbanka en sú ákvörðun mun að miklu leyti ráðast af efnahagsástandinu í Bandaríkjunum á næstu misserum.

Japansbanki hélt stýrivöxtum óbreyttum í 0,5% í gær, eins og flestir greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir - ekki síst í ljósi þess að nokkrum klukkustundum áður hafði bandaríski seðlabankinn lækkað stýrivexti sína um 50 punkta. Toshihiko Fukui, seðlabankastjóri, sagði að áhyggjur af hugsanlegum samdrætti í Bandaríkjunum sem myndi í kjölfarið ógna efnahagsbata Japans væru helsta ástæða vaxtaákvörðunar bankans, en átta stjórnarmenn af níu greiddu atkvæði með óbreyttum vöxtum á meðan einn vildi hækka vexti um 25 punkta.

Grafið undan markmiði seðlabankastjórans
Enda þótt flestir sérfræðingar hafi átt von á einróma ákvörðun stjórnarinnar þá er engu að síður talið mjög ólíklegt að andstaða eins stjórnarmanns verði til þess að Japansbanki muni hækka vexti í næsta mánuði. Hins vegar leiddi klofningur stjórnarinnar til þess að japönsk ríkisskuldabréf til tíu ára lækkuðu nokkuð, að því er Bloomberg-fréttaveitan greinir frá.

Á fjölmiðlafundi í Tókýó í gær sagðist Fukui ekki sjá mikil batamerki á því ástandi sem ríkt hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að undanförnu. "Það ríkir enn óróleiki og óvissa," er haft eftir honum í Financial Times. Ummæli seðlabankastjórans styrkja enn frekar þá skoðun hagfræðinga að það muni reynast Japansbanka erfitt að réttlæta stýrivaxtahækkun á þessu ári, líkt og peningamálstefna bankans hafði áður gert ráð fyrir. Lausafjárkrísan á fjármálamörkuðum, verðlækkanir og samdráttur í japanska hagkerfinu á öðrum ársfórðungi hafa grafið undan markmiði Fukui um að hækka stýrivexti í það sem "eðlilegt" getur talist, áður en hann lætur af embætti í byrjun næsta árs.

Óvissa um næstu stýrivaxtahækkun Japansbanka
Nikkei-hlutabréfavísitalan í Tókýó hækkaði um 3,7% - sem er mesta hækkun á einum degi í fimm ár - í kjölfar vaxtaákvörðunar bandaríska seðlabankans. Skörp vaxtalækkun vestanhafs gerði það einnig að verkum að áhættusækni fjárfesta til að eiga í vaxtamunarviðskiptum jókst á ný; japanska jenið veiktist gagnvart helstu myntum á gjaldeyrismarkaði, en þó sérstaklega gagnvart hávaxtamyntum á borð við íslensku krónuna, nýsjálenska dalinn og ástralska dalinn.

Hvenær Japansbanki ræðst í næstu stýrivaxtahækkun mun að miklu leyti ráðast af þróuninni í bandaríska hagkerfinu, að mati Tomoko Fujii, aðalhagfræðings Bank of America í Japan. Reuters-fréttastofan hefur eftir honum að sennilega muni bankinn þurfa að bíða fram í janúar - jafnvel lengur - til að hækka vexti í 0,75%.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.