Stýrivöxtum var haldið óbreyttum í 0,25% á evrusvæðinu í dag. Þetta er í samræmi við væntingar. Innlánsvöxtum hjá evrópska seðlabankanum var á sama tíma haldið óbreyttum í núlli. Líklegt þykir að Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans, greini frá því síðar í dag þegar hann gerir grein fyrir vaxtaákvörðun bankans, að stýrivöxtum verði haldið lágum um óákveðinn tíma.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal segir um vaxtákvörðunina í dag að hún sé skiljanleg í skugga afar lítillar verðbólgu á evrusvæðinu um þessar mundir sem geti ógnað efnahagsbatanum.

Blaðið rifjar hins vegar upp að Draghi hafi sagt seint á síðasta ári að seðlabankinn sjái ekki vísbendingar um verðhjöðnun í kortunum. Þó sé ekki útilokað að bankinn bregðist við til að fyrirbyggja slíka stöðu.