Bankastjórn Englandsbanka ákvað í dag að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 0,5% í Bretlandi. Stuðningi við efnahagslífið verður sömuleiðis haldið áfram og mun Englandsbanki kaupa áfram ríkisskuldabréf banka og fjármálafyrirtækja.

Breska útvarpið ( BBC ) segir þetta í takt við væntingar þótt vísbendingar séu um að breska hagkerfið sé að taka við sér. BBC rifjar upp að Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, hafi lagt á það ríka áherslu fyrir nokkru að stýrivöxtum verði haldið lágum að sinni og jafnvel í nokkurn tíma.