Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,75%. Rökin fyrir vaxtaákvörðuninni, eins og fram kemur í Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabankans sem kemur út í dag, eru þau að efnahagsbatinn haldi áfram þrátt fyrir að dregið hafi úr hagvexti á heimsvísu og óvissa í efnahagsmálum mikil.

Þá kemur fram í Peningamálum að horfur í efnahagsumsvifum eru í megindráttum svipaðar og í nóvemberspá bankans. Þá eru verðbólguhorfur til skamms tíma jafnframt í takt við spá bankans þótt spáð sé heldur hægari hjöðnun verðbólgu á árinu. Að því viðbættu hefur gengi krónunnar haldist á svipuðum slóðum og verðbólga því yfir verðbólgumarkmiðum lengum en spáð var í nóvember í fyrra.

Peningastefnunefnd ákvað að hækka stýrivexti um 25 punkta á fundi sínum í nóvember í fyrra en hélt þeim óbreyttum í desember. Styrmir Guðmundsson, sjóðsstjóri hjá Júpíter, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðasta tölublaði umsamdar launahækkanir skýra aukna verðbólgu og að markaðurinn vænti 25 punkta hækkunar að nýju í dag.

Horft á verðbólguna

Í rökum fyrir vaxtaákvörðun Seðlabankans kemur fram að eftir því sem efnahagsbatanum vindi fram og dragi úr slaka í þjóðarbúskapnum verði nauðsynlegt að draga úr slaka peningastefnunnar. „Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar. Batni verðbólguhorfur ekki er líklegt að hækka þurfi nafnvexti á næstunni til þess að taumhald peningastefnunnar, sem er enn tiltölulega laust, verði hæfilegt,“ segir í vaxtaákvörðuninni.