Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 6%. Þetta er í samræmi við spár greiningardeilda bankanna og aðra markaðsaðila.

Í forsendum Peningastefnunefndarinnar kveður við nokkuð svartsýnan tón. Þar segir m.a. að nýlegar hagtölur bendi til þess að hagvöxtur í fyrra hafi verið minni en áður var talið og horfur eru á hægari hagvexti í ár en spáð var í nóvember. Þá hafi fjöldi unninna stunda í þjóðarbúskapnum aukist minna en spáð var og séu viðskiptakjör lakari. Þótt hægari vöxtur dragi nokkuð úr verðbólguþrýstingi þegar líða tekur á spátímabilið vegur þyngra framan af að spáin byggist á lægra gengi krónunnar en í nóvember. Verðbólguhorfur eru því í stórum dráttum svipaðar og þá.