Styrkár J. Hendriksson hefur verið ráðinn í starf sérfræðings í lánsfjáröflun og greiningu skuldabréfamarkaðar hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu úr hópi 38 umsækjenda.

Styrkár starfaði síðast sem verkefnastjóri hjá Fjársýslu ríkisins, en var áður hjá Íslenskum verðbréfum og starfaði við fjármálaráðgjöf. Þar áður var hann forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Arion Banka árin 2012-2015 og á undan því í tæp tíu ár hjá MP Banka, meðal annars sem sem forstöðumaður markaðsviðskipta, skuldabréfa- og afleiðuviðskipta, þróunarsviðs og eigin viðskipta, eignastýringar, áhættustýringar og innra eftirlits. Þá hefur hann starfað sem forstöðumaður hjá Eimskipum og hjá Greenwich Capital Market í Bandaríkjunum.

Hann er með MBA-gráðu með áherslu á fjármál frá New York University og B.Sc. próf í tölvunarfræði frá University of London.

Markmið starfsins er í starfslýsingu sagt að „stuðla að hagkvæmri fjármögnun ríkissjóðs sem styður við fjárhags- og hagstjórnarmarkmið stjórnvalda,“ en sem kunnugt er hefur fjármögnunarþörf ríkisins aukist mikið vegna stóraukinna útgjalda og samdráttar tekna í tengslum við heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum.