Fjármálastjórar stærstu fyrirtækja landsins eru almennt bjartsýnir um þróun rekstarumhverfis fyrirtækja næstu tólf mánuðina. Þó hefur dregið nokkuð úr bjartsýni þeirra á undanförnu ári. Þetta er meginniðurstaða könnunar ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Almennt eru fjármálastjórar bjartsýnir á eigin rekstur. Flest fyrirtæki sjá fram á aukningu í tekjum og stefna á fjárfestingar, lækkun kostnaðar og stækkun með innri vexti á komandi mánuðum. Fjármálastjórar eru ekki jafn bjartsýnir um hagvöxt og fyrir ári síðan. Gengisþróun íslensku krónunnar er áfram stærsti einstaki áhættuþátturinn í rekstri fyrirtækja, en fleiri fjármálastjórar hafa áhyggjur af frekari styrkingu. Meirihluti þeirra telur að krónan muni halda áfram að styrkjast á næsta ári.

Tilgangur fjármálastjórakönnunar Deloitte er að sýna mat fjármálastjóra á stöðu fyrirtækja og hagkerfisins. Könnunin er gerð tvisvar á ári og er þetta í sjöunda sinn sem hún er framkvæmd. Sendur var út spurningalisti og fengust flest svör frá fjármálastjórum í iðnaði og framleiðslu ásamt verslun og þjónustu. Yfir helmingur svarenda starfar hjá fyrirtækjum sem velta yfir 5 milljörðum króna á ári.

Mörgum verður gætni að gagni

Meirihluti fjármálastjóra gerir ráð fyrir aukningu í tekjum og rekstrarhagnaði næstu tólf mánuðina, þó hlutfall þeirra hafi lækkað frá síðustu könnun. Áfram verður mest áhersla lögð á lækkun kostnaðar og stækkun með innri vexti. Meirihluti fyrirtækja stefnir á fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum. Í langflestum tilvikum munu ráðningar nýrra starfsmanna haldast óbreytt eða aukast lítillega.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .