Krónan hefur styrkst um 2,2% það sem af er morgni og samkvæmt upplýsingum frá millibankamarkaði Landsbankans hefur hún styrkst jafnt og þétt það sem af er morgni. Evran hefur veikst um tæp 3% í morgun og dalurinn um 2,35%.

Að sögn Brynjólfs Gunnarssonar, á millibankamarkaði Landsbankans, hafa þeir fundið ágætan áhuga hjá innlendum aðilum að koma inn í krónuna enda taldi hann að útflutningsgreinarnar hefðu fremur haldið að sér höndum og safnað upp gjaldeyri undanfarið.

Brynjólfur benti á að það væri ekki mikil dýpt í markaðinum og í raun toguðust þar eingöngu á útflutningur og innflutningur sem væri greinilega krónunni í hag enda viðskiptajöfnuðurinn hagstæður undanfarna mánuði. Þá væru jólainnkaup verslunarinnar búin og ólíkleg til að hafa áhrif á þróunina.

Brynjólfur benti á að markaður með krónuna erlendis hefði þornað upp og væri því ekki að hafa áhrif á þróun krónunnar nú.