Icelandair birti á miðvikudag uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung 2016. Hagnaður félagsins hefur aukist umtalsvert milli ára og nam 3,18 milljörðum króna á fjórðungnum. Rekstrarskilyrði flugfélaga hafa versnað umtalsvert á heimsvísu í kjölfar hryðjuverka og óvissu á mörkuðum.

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, segir í samtali við Viðskiptablaðið styrkingu krónunnar einnig hafa áhrif. „Félagið er með mikið af kostnaðarliðum í íslenskum krónum og þegar krónan styrkist, hækka einnig kostnaðarhlutföllin. Stærsti hluti launakostnaðar félagsins er til að mynda í krónum.“

Bogi segir félagið þó gera ráðstafanir. Mikilvægt sé að horfa langt fram í tímann, greina helstu gjaldmiðlana og nota framvirka samninga til þess að tryggja sig gegn gengissveiflum.