*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 5. maí 2021 08:02

Styrkir frá lesendum björguðu árinu

Fótbolti.net fékk ekki fjölmiðlastyrk í fyrra en samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi uppfyllir miðillinn skilyrði fyrir rekstrarstuðningi.

Jóhann Óli Eiðsson
Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri og eigandi 95% hlutar í Fótbolta ehf., sést hér með myndavél í hönd í byrjun Pepsi Max deildarinnar þetta árið.
Jóhannes Long

Fótbolti.ehf, sem á og rekur vefsíðuna fotbolti.net, hagnaðist um 1,4 milljón króna á síðasta rekstrarári. Árið 2019 hafði tap verið upp á 64 þúsund krónur. Styrkir frá lesendum vefsins komu í veg fyrir að verulegt tap yrði á rekstri félagsins. Þetta kemur fram í ársreikningi þess.

Tekjur af hefðbundinni starfsemi félagsins námu 44,6 milljónum króna og drógust saman um tæplega níu milljónir króna milli ára. Samdrátturinn nam því um sextán prósentum. Aðrar tekjur hækkuðu aftur á móti úr 1,7 milljónum króna í 7,2 milljónir króna. Mestu munaði þar um 5,3 milljónir króna sem félagið fékk í formi beinna styrkja frá lesendum. Félagið féll ekki undir skilyrði til að fá styrk frá hinu opinbera til fjölmiðla vegna tekjufalls og þegar fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra var upphaflega lagt fram féll félagið utan þess. Samkvæmt breyttu frumvarpi er það innan marka.

Áhrifa faraldursins gætti í rekstri þess en til að mynda var deildakeppnum og stórmótum frestað vegna hans. Umferð á vefinn er almennt meiri í kringum slíkt mót og því algengt að auglýsendur kjósi að nýta sér það til að auglýsa vörur og þjónustu. Félagið nýtti sér hlutabótaleið stjórnvalda sökum þessa auk þess að starfsmenn lækkuðu starfshlutfall sitt á síðasta ári.

Meðal ársverk 2019 voru 4,6 en voru fjögur í fyrra. Laun námu tæpum tuttugu milljónum króna og lækkuðu um 3,1 milljón milli ára. Með launatengdum gjöldum nam launakostnaður 25 milljónum króna. 

Fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra

„Í ársbyrjun 2020 fóu stjórnendur félagsins þess á leit við lesendur vefsins fotbolti.net að styrkja reksturinn með frjálsum framlögum. Alls námu þessir styrkir 5,3 millj.kr. á árinu 2020. Ástæður þess að þessi leið var farin, var það misrétti sem sem ríkir á fjölmiðlamarkaði og gerir litlum einkareknum fjölmiðlum sem fjalla um sérhæfð málefni óhægt um vik að nálgast styrki og auglýsingatekjur frá ríkinu. Glöggt dæmi um þetta er að fótbolti.net féll fyrir utan þær reglur sem voru til viðmiðunar á styrkjum til fjölmiðla sem veittir voru á árinu 2020. Einnig er fótboli.net fyrir utan skilyrði stuðnings í fjölmiðlafrumvarpi sem nú er í umræðunni,“ segir í skýrslu stjórnar fyrir rekstrarárið í fyrra. Samkvæmt því breyttu frumvarpi sem liggur fyrir þinginu í dag uppfyllir miðillinn skilyrði fyrir rekstrarstuðningi.

„Hefði ekki komið til styrkja frá lesendum hefði orðið verulegt tap af rekstrinum. Áætlanir stjórnenda fyrir árið 2021 gera ráð fyrir því að reksturinn verði svipaður og á árinu 2020. Þó má lítið út af bregða til þess að tekjur minnki og tap verði á rekstrinum. Stjórnendur telja þó að það muni ekki skaða félagið til langframa og muni ekki leiða til þess að vafi leiki á rekstrarhæfi þess, enda eiginfjárstaða félagsins góð í árslok 2020,“ segir í skýrslu stjórnar.

Eignir félagsins í árslok voru metnar á 16,8 milljónir króna og jukust um 4,2 milljónir milli ára. Mestu munar þar um rúmlega sex milljón króna hækkun handbærra fjármuna. Skuldir námu 8,1 milljón króna og hækkuðu um tæpar þrjár milljónir. Afkoma ársins var nýtt til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé en það var rúmar átta milljónir króna í ársbyrjun.