Tekjufallsstyrkir sem Skatturinn hefur greitt út til 540 rekstraraðila sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar nema 3,7 milljörðum króna síðustu tvær vikurnar.

Jafnframt hafa 1.450 rekstraraðilar fengið lokunarstyrki fyrir rúmlega 1,8 milljarða króna síðustu mánuði en i heildina hafa á fjórða þúsund rekstraraðila og tugþúsundir einstaklinga nýtt sér á annan tug mismunandi úrræða sem stjórnvöld bjóða upp á.

Tilkynning um greiðslurnar birtist rétt í þessu á vef Stjórnarráðsins, en þar segi rað markmiðið með þeim sé að styðja fyrirtæki og einyrkja sem hafi orðið fyrir meira en 40% tekjufalli.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag hafa minni rekstraraðilar kvartað yfir því að afhending tekjufallsstyrkjanna sé föst hjá Skattinum og ýmsir tæknilegir örðugleikar séu á vefsíðunni þar sem sækja á um þá.

Auk þess segja rekstraraðilarnir sem kalla sig Samstöðuhópur einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu að ekkert bóli á öðrum lausnum sem heitið hefur verið í aðgerðaráætlunum stjórnvalda vegna áhrifa samkomubanna og ferðatakmarkana vegna heimsfaraldursins.

Í tilkynningu stjórnarráðsins segir jafnframt að til skoðunar sé að leggja til breytingar á afborgunartíma stuðningslána í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

„Hjá Skattinum er unnið að því að opna fyrir umsóknir um viðspyrnustyrki sem ætlað er að tryggja að fyrirtæki geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og tryggt viðbúnað þegar úr rætist,“ segir þar jafnframt.

„Fjölmörg önnur úrræði hafa boðist vegna áhrifa Covid-19. Þar má nefna viðbótarlán, laun í sóttkví, ráðningarstyrki, hlutabætur, styrki til greiðslu launa á uppsagnarfresti, tekjutengdar atvinnuleysisbætur og frestun skattgreiðslna.“