Sjóvá, sem er aðalstyrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar, styrkir samtökin um 142,5 milljónir króna til að standa straum af kaupum á fyrstu þremur af alls þrettán björgunarskipum sem samtökin stefna að því að láta smíða fyrir sig.

Landsbjörg og Sjóvá hafa um áratugaskeið átt í farsælu samstarfi. Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, varaformaður samtakanna, segir fáheyrt að svo rausnarlegur styrkur berist til sjálfboðaliðasamtaka og þetta séu sérstaklega ánægjulegar fréttir fyrir endurnýjun allra þrettán björgunarskipa félagsins. Þetta sé stærsti einstaki styrkur sem veittur hafi verið til leitar- og björgunarstarfa á Íslandi.

Hafin er smíði á fyrsta nýja björgunarskipinu hjá KewaTec í Finnlandi og er áætlað að það verði afhent á goslokahátíð í heimahöfn í Vestmannaeyjum í júní 2022. Áætluð afhending á öðru skipinu er í heimahöfn á Siglufirði fyrir árslok 2022 og smíði á þriðja skipinu hefst í janúar 2023 og verður það afhent eftir mitt það ár.

Helmingur í hendi

Hvert þessara nýju skipa kosta 285 milljónir króna og helmingur af fjármögnun þeirra var tryggður með samkomulagi við íslenska ríkið í janúar síðastliðnum. Viðbragðstími nýju björgunarskipanna er umtalsvert meiri en eldri skipa og meðalganghraði þeirra er 35 hnútar á móti 14 hnútum í eldri skipum.

„Með nýjum björgunarskipum verður bylting í viðbragðstíma og aðbúnaði fyrir áhafnir og skjólstæðinga. Skipin skipta miklu máli fyrir öryggi sjófarenda í kringum landið og er smíði nýju skipanna stærsta fjárfesting sem félagið hefur ráðist í frá upphafi. Svona veglegur styrkur frá Sjóvá er afrakstur áratuga langs og trausts samstarfs,” segir Borghildur Fjóla.