Undanfarin ár hafa um 20% af tækjakaupum Landspítalans verið fjármögnuð með styrktarfé, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. Hlutfallið hækkaði mjög árið 2010, bæði vegna meiri styrkveitinga og lægri fjárveitinga frá ríkinu. Á síðustu fimm árum hafa spítalanum borist um 1,2 milljarður króna í styrkjum til fjárfestingar í tækjabúnaði, á verðlagi ársins 2014. Heildarfjárfesting í tækjabúnaði á sama tímabili var 5,2 milljarðar króna á verðlagi ársins 2014.

Hlutdeild styrkja í heildarfjármögnun tækjakaupa er mun hærri hjá Landspítalanum en hjá helstu spítölum annarra Norðurlanda. Þannig fást þær upplýsingar hjá háskólasjúkrahúsinu í Osló að hlutdeild styrkveitinga í fjármögnun lækningatækja sjúkrahússins sé hverfandi og að spítalanum berist aðallega styrkir til kaupa á leikföngum og öðru slíku. Hjá Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi fást þær upplýsingar að styrkir séu mjög lítill hluti af heildarfjármögnun tækjabúnaðar, eða vel innan við tíu prósent.

Gera má ráð fyrir að hlutdeild styrkja í fjármögnun tækjabúnaðar Landspítalans muni haldast há næstu misserin og jafnvel vaxa, en eins og áður hefur komið fram ætlar Íslensk erfðagreining að gefa Landspítalanum jáeindaskanna sem kostar um einn milljarð króna.

Dýr tæki vekja meiri áhuga

„Þetta er spítalanum náttúrulega gríðarlega mikilvægt. Almannatengsladeildin hér hjá okkur hefur eitthvað verið að horfa til þess með hvaða hætti væri hægt að styrkja þennan þátt," segir Rúnar Bjarni Jóhannsson, deildarstjóri reikningshalds á fjármálasviði Landspítalans, um mikilvægi styrkveitinga fyrir tækjakaup spítalans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .