Endurgreiðslukerfi kvikmynda hefur eflt innlenda menningu og kynningu á sögu landsins og náttúru, laðað að erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis á Íslandi og eflt þekkingu og reynslu íslensks kvikmyndagerðarfólks. Þetta er á meðal niðurstaðna í skýrslu Hagfræðistofnunar um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi.

Stofnunin segir hins vegar að varlega þurfi að fara í túlkun á hagrænum áhrifum ólíkra starfsgreina.

Heildaráhrif endurgreiðsluverkefna 1,8 milljarðar

Hagfræðistofnun segir að þegar efnahagsleg áhrif styrkja til kvikmyndagerðar eru metin skipti öllu máli hvort og hvernig tekið er tillit til afleiddra áhrifa. Varasamt geti verið að líta til slíkra áhrifa, þar sem þá sé gert ráð fyrir að lítil sem engin önnur starfsemi hefði myndast ef ekki hefði verið fyrir kvikmyndagerð.

Þá segir að notkun margfaldara til að reikna út óbein áhrif sé á margan hátt varhugaverð, þó hún sé algeng. Ætla megi „að slíkir útreikningar eigi betur við um svokallaða grunnatvinnuvegi en aðra en tæplega verður kvikmyndagerð talin til grunnatvinnuvega á Íslandi,“ segir í skýrslunni.

Með þessum fyrirvörum metur Hagfræðistofnun það sem svo að beinn virðisauki kvikmyndageirans hafi numið 3,7 milljörðum króna árið 2013 og er það aukning um 43% frá árinu 2009. „Virðisauki endurgreiðsluverkefna hefur verið gróflega áætlaður rúmar 730 milljónir króna á ári að meðaltali árin 2011-2013. Séu þessi beinu áhrif margfölduð með framleiðslumargfaldara upp á 2,4 fást heildaráhrif endurgreiðsluverkefna, en þau eru um 1,8 milljarðar króna, eða um 0,11% af landsframleiðslu á þáttavirði,“ segir jafnframt.

Styrkir séu ekki fjárfesting

Hagfræðistofnun segir að almennt sé talið best fyrir efnahagslífið að atvinnugreinum sé ekki mismunað hvað varðar beinan eða óbeinan stuðning hins opinbera. Á þessu geti þó verið undantekningar, til dæmis ef viðkomandi atvinnugrein skapar svokölluð verðleikagæði sem auðga samfélagið og fela í sér jákvæð ytri áhrif.

Stofnunin segir að við venjulegar kringumstæður sjái markaðurinn til þess að útflutningur sé þjóðhagslega hagkvæmur. Ef útflutningur eigi sér ekki stað nema með styrkjum frá hinu opinbera sé það vísbending um að hann sé ekki ábatasamur. Að sama skapi sé talað um fjölda starfa sem hið opinbera skapar með stuðningi sínum, en Hagfræðistofnun segir að störf séu í flestum tilfellum sjálfsprottin og að hið opinbera þurfi aðeins að hlúa að eðlilegri umgjörð vinnumarkaðar.

Þá segir að óvarlegt sé að líta á styrki til kvikmyndagerðar sem fjárfestingu sem ríkið fái til baka í formi skattgreiðslna. „Aðalatriðið er að það er hin undirliggjandi starfsemi sem skapar verðmæti, í formi launa, arðs og skattgreiðslna, en ekki styrkurinn. Réttilega má benda á að styrkurinn eykur umfang í rekstrinum eða iðngreininni í tilviki kvikmyndagerðar, en óvarlegt er að fullyrða að sú aukning leiði til aukins heildarábata fyrir samfélagið, nema í því tilfelli þar sem verðmætasköpun í greininni er meiri en annars staðar í hagkerfinu,“ segir í skýrslunni.

Styrkir 2,2 milljörðum meiri en skatttekjur

Á tímabilinu 2008-2012 voru endurgreiðslur ríkisins til kvikmyndagerðar og styrkir úr Kvikmyndasjóði samtals 2,2 milljörðum meiri en skatttekjur ríkisins af kvikmyndagerð. Skatttekjurnar jukust þó hratt, en þær voru 801 milljón króna árið 2012 borið saman við 166 milljónir árið 2008. Engu að síður voru skatttekjur ríkisins af kvikmyndagerð minni en styrkir árið 2012.

Í lok umfjöllunar um skatttekjur og endurgreiðslur segir að erfitt geti reynst að sýna fram á augljósan efnahagslegan ábata af því að styðja kvikmyndagerð umfram aðrar greinar. Óvéfengjanlegur ávinningur sé fyrst og fremst fólginn í menningarlegum verðmætum, ásamt aukinni þekkingu og færni kvikmyndagerðarfólks. Auk þess geti kvikmyndaiðnaðurinn stuðlað að aukinni veltu í ferðaþjónustu vegna þeirrar landkynningar sem hlýst af kvikmyndagerð hér á landi.

Skýrsla Hagfræðistofnunar í heild sinni.