Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til að dregið verði úr styrkjum til landbúnaðarins, neðra þrep virðisaukaskatts verði hækkað og betur verði hugað að því hvernig útgjöldum til velferðarmála er varið.

Fyrirsjáanlegur halli á fjárlögum fyrir þetta ár og mögulegur halli á fjárlögum næsta árs var til umræðu þegar sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var í heimsókn hér í sumar. Ræddar voru leiðir til úrbóta. Skýrsla sjóðsins var birt í gær.

Virðisaukaskattsþrepin eru tvö. Almennt er lagður 25,5% virðisaukaskattur á vörur. Aðrar vörur, einkum matvörur, bera 7% virðisaukaskatt og það er sú skattprósenta sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að hægt sé að hækka.

Þá telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að hægt sé að hagræða meira í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu án þess að þjónustan versni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé með því besta sem fyrirfinnist en menntakerfið sé einungis miðlungsgott.