Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki til rannsókna á sviði húsnæðismála á Íslandi sem Íbúðalánasjóður hyggst úthluta á árinu 2017. Styrkirnir standa til boða öllum þeim sem stunda rannsóknir á meistarastigi eða hærra menntunarstigi, án tillits til fræðasviða.

  • Heildar fjárhæð styrkja á árinu 2017 allt að 15 milljónir króna.
  • Húsnæðisskortur og hátt verð húsnæðis kallar á að nýrra leiða sé leitað
  • „Vonandi mun samstarfið við Íbúðalánasjóð verða til þess að ný þekking skili sér fyrr í formi lausna sem gagnast munu fólki á húsnæðismarkaði,“ segir rektor LHÍ

Verulegur vandi hefur skapast á húsnæðismarkaðnum hér á landi síðustu misseri og eitt af því sem talið er geta komið í veg fyrir að svipað neyðarástand skapist að nýju er efling rannsókna tengdum húsnæðismálum.

Töluverðum upphæðum verður varið til verkefnisins. Veittir verða allt að 15 styrkir á ári og er miðað við að styrkir séu að jafnaði ekki hærri en 1 milljón kr.
Með veitingu styrkjanna er vonast til að fjölga verkefnum og rannsóknum á sviði húsnæðismála sem geta eflt íslenskan húsnæðismarkað og stuðlað að auknu jafnvægi í húsnæðismálum hér á landi.