Tekjufallsstyrkir ríkisins til minni fyrirtækja og einyrkja í ferðaþjónustu sem orðið hafa fyrir verulegri skerðingu tekna vegna kórónuveirufaraldursins verða tæplega 60% heildarfjárhæðarinnar sem áætlaðar eru til styrkjanna, eða 3,5 milljarðar af 6 milljarða heildargreiðslna vegna meiriháttar tekjufalls.

Samkvæmt mati KPMG fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er áætlað að kostnaðurinn við úrræðið geti numið allt að 3,5 milljörðum króna ef öll fyrirtæki sem hafa rétt á þeim nýta sér úrræðið.

Heildartillögurnar með átta mismunandi úrræðum vegna áhrifa faraldursins sem Viðskiptablaðið sagði frá að ríkisstjórnin hefði kynnt í septemberlok voru þá sagðar geta kostað um 25 milljarða króna. Þar af voru kynntir 6 milljarðar króna í beina styrki til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir tekjuhruni, en þá var ekki talað sérstaklega um minni fyrirtækja og einyrkja í ferðaþjónustu.

Um miðjan október sagði Viðskiptablaðið svo frá því að sérstakir styrkir til minni rekstraraðila og einyrkja vegna tekjufalls muni að hámarki nema 400 þúsund krónum á hvert af allt af þremur stöðugildum.

Það er að hámarki 1,2 milljónir á mánuði í 6 mánuði, eða alls 7,2 milljónir króna, samkvæmt frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn. - Ath tölurnar og önnur atriði í fréttinni hafa verið leiðréttar

Jafnframt er þar miðað við 50% tekjufall á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september í ár auk skilyrða um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.

Ef frumvarpið sem nú er til umfjöllunar verður samþykkt á Alþingi munu minni ferðaþjónustuaðilar, leiðsögumenn og fleiri geta sótt um styrkina, en þeir munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) rekstraraðilanna á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020.