Pólitísk styrktarnefnd (e. PAC / Political action committee) hefur styrkt framboð Hillary Clinton um heilar 11,7 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur um 1,4 milljarði íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt Washington Post.

Með þessum styrkjum hefur nefndin því styrkt Hillary um 67 milljónir Bandaríkjadala eða 8,2 milljarða íslenskra króna. Upphæðin er fremur há miðað við styrkina sem Ted Cruz og John Kasich hlutu Repúblikanamegin - en þeir hófu aprílmánuð með litlu meira en milljón Bandaríkjadala.

Féð verður nýtt helst til þess að auglýsa framboð Clinton en auk þess í þeim tilgangi að gagnrýna og ráðast að framboðum Ted Cruz og Donald Trump. Aðeins fimm frambjóðendur standa eftir í forkosningunum til forsetaembættisins, en kosið verður þann áttunda nóvember í ár.