Reykjavík Creamery fékk í byrjun ársins 470 þúsund dollara styrk, um 60 milljónir króna, frá yfirvöldum í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum til að efla tækjakost félagsins. Reykjavík Creamery er alfarið í íslenskri eigu og hóf framleiðslu í september 2019 í Cumberland-sýslu í Pennsylvaníu, sem er í um tveggja tíma akstursfjarlægð frá Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna. Þar býr félagið til skyr, gríska jógúrt og fleiri sýrðar mjólkurvörur úr lífrænni og hefðbundinni mjólk.

Gunnar Birgisson, stofnandi og framkvæmdastjóri Reykjavík Creamery, segir styrkinn talsverða viðurkenningu. „Það hefur verið vel tekið á móti okkur í Pennsylvaníu,“ segir Gunnar. Hann segist horfa bjartsýnn til framtíðar þó að verkefnið sé enn sem komið er skammt á veg komið og ýmsar áskoranir sem takast þarf á við dags daglega í svona rekstri.

Með vörur í Whole Foods, Costco og Walmart

Reykjavík Creamery er ekki með eigin vörumerki í verslunum heldur selur mjólkurvörur til þriðja aðila sem selja framleiðslu Reykjavik  Creamery undir eigin vörumerkjum í verslanir á borð við Whole Foods, Costco og  Walmart. Gunnar segir vinnslu félagsins byggja á svonefndri örsíun eða „ultra filtration“. „Það veitir okkur talsvert forskot hvað varðar gæði, áferð og nýtni samanborið við það sem flestir sambærilegir aðilar í Bandaríkjunum nota, sem eru skilvindur. Það gerir okkur auðveldara að vinna misfeitar mjólkurvörur en þeim erfiðara að ná þeirri áferð sem við þekkjum af skyrinu heima.“

Stefna á að þrefalda framleiðslugetuna

Styrkurinn var veittur af Pennsylvania Dairy Investment Program, sem komið var á fót árið 2018 og er ætlað er að efla mjólkurvinnslu í ríkinu. „Mjólkurbændur í Bandaríkjunum hafa átt á brattann að sækja,“ segir Gunnar. Í Pennsylvaníu fækkaði kúabúum um 370 árið 2018 og mjólkurkúm um 25 þúsund. „Það hefur skort á nýsköpun þó að það sé að breytast. Þess vegna hefur okkar litla fyrirtæki fengið meiri athygli og áhuga innan stjórnsýslunnar í Harrisburg, höfuðborg Pennsylvaníu, en stærð og umfang framleiðslunnar gefur tilefni til,“ segir Gunnar. Nýta á styrkinn til að efla tækjakost félagsins en með því verði hægt að þrefalda framleiðslugetu félagsins. Þá er stefnt að því að ráða 10 starfsmenn til viðbótar en um 10 manns starfa hjá félaginu í dag.

Íslenskir fjárfestar í hluthafahópnum

Í stjórn íslenska félagsins Reykjavík Creamery ehf., sem hefur lagt starfseminni í Bandaríkjunum til fé, sitja auk Gunnars þeir Benedikt Einarsson fjárfestir og Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Borgarplasts og fyrrverandi forstjóri Heimavalla og Mjólkursamsölunnar, sem jafnframt er hluthafi í félaginu.

Samkvæmt ársreikningi Reykjavík Creamery ehf. fyrir árið 2018 höfðu 430 milljónir króna af hlutafé verið lagðar í félagið. Hlutafé þess var aukið frekar í lok árs 2019. Meðal hluthafa í félaginu auk Gunnars voru P126 ehf. í eigu Einars Sveinssonar fjárfestis, Snæból ehf. í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reys Stefánssonar og fjármálafyrirtækið Arctica Finance.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Forstjóri Sýnar segir ljóst að áætlanir félagsins í tengslum við kaupa á eignum 365 miðla hafi verið óraunhæfar
  • Hlutabréf Tesla hafa hækkað ævintýralega undanfarna daga og vikur
  • Bílasala hefur dregist saman á stærsta bílamarkaði heims
  • Brotalamir eru í starfsemi ýmissa sjálfstæðra stjórnsýslunefnda sem starfa hér á landi
  • Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, er í ítarlegu viðtali.
  • Fyrrum starfsmaður Spotify segir frá erindi sem hún mun halda á UT messunni.
  • Pósturinn fór á svig við samkeppnissátt en það felur ekki sjálfkrafa í sér brot við sátt að sögn forstjóra eftirlitsins.
  • Snorri Pétur Eggertsson, nýr framkvæmdastjóri hjá KEA hótelunum, er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn og Óðinn eru á sínum stað, auk Týs.