Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, úthlutaði í gær styrkjum til Kerecis, 66°Norður og UN Women á Íslandi. Um er að ræða styrki úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarvinnu vegna samfélagsverkefna í þróunarlöndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Lækningavörufyrirtækið Kerecis fær 30 milljóna króna stuðning ráðuneytisins úr Heimsmarkmiðasjóðnum við samfélagsverkefni fyrirtækisins í Kaíró í Egyptalandi. Þar hefur Kerecis tekið saman höndum með Ahl Masr brunaspítalanum og kennir læknum að nota íslenskt sáraroð við meðhöndlun alvarlegra brunasára. Ahl Masr er góðgerðaspítali sem sérhæfir sig í meðhöndlun efnaminni sjúklinga, þeim að kostnaðarlausu. Kerecis veitir sérfræðingum Ahl Masr þjálfun og útvegar þeim lækningavörur.

„Alvarleg brunaslys sem tengjast notkun á steinolíu við eldamennsku eru sorglega algeng í Egyptalandi og einn af hverjum þremur sem lenda á sjúkrahúsi vegna slíkra áverka deyr af sárum sínum,“ segir Guðmundur Fertram , forstjóri Kerecis. „Við trúum því að okkur vörur geti bjargað mannslífum og aukið lífsgæði þeirra sem slasast með þessum hætti. Þess vegna ætlum við að kenna egypskum læknum að nota íslenskt sáraroð í brunameðferðum og erum þakklát fyrir stuðning ráðuneytisins. Hann gefur verkefninu aukinn slagkraft, auk þess að vera okkur mikil hvatning til góðra verka.“

Þórdís Kolbrún segir að framlag Kerecis muni skipta sköpum fyrir fátæka sjúklinga óháð kyni, aldri og efnahag en stórt hlutfall brunasjúklinga í Egyptaland eru börn á leikskólaaldri og konur.

„Bætt brunameðferð með íslensku sáraroði mun leiða til þess að þau snúi fyrr aftur til náms eða vinnu auk þess sem langtíma færniskerðing og útlitslýti mun minnka, sem aftur leiðir til aukinnar atvinnuþátttöku og minni útskúfunar. Þetta framlag Kerecis er því afar mikilvægt og stuðlar beinlínis að auknu jafnrétti,“ sagði Þórdís Kolbrún við undirritun styrktarsamningsins í gær.

Verkefnið er einnig sagt miða að því að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun við notkun sáraroðs við brunameðferð í þróunarlöndum. Einnig verður unnið að því að þjálfa sérfræðinga sem geti annast kynningu og dreifingu á sáraroði til brunameðferð víðar í fátækari ríkjum heims í Afríku og Miðausturlöndum.

Atvinnusköpun fyrir flóttakonur

Þá úthlutaði utanríkisráðuneytið 30 milljóna króna styrk úr Heimsmarkmiðasjóðnum til 66°Norður og UN Women á Íslandi gegn sambærilegu mótframlagi fyrirtækisins til að vinna að verkefni til atvinnusköpunar fyrir flóttakonur frá þróunarríkjum í Tyrklandi.

Verkefnið snýr að því að vinna að atvinnusköpun fyrir konur á flótta frá Sýrlandi, Afganistan og Írak, en þær fá þjálfun í fataframleiðslu með fjárhagslegt sjálfstæði að leiðarljósi. Þær læra að endurnýta efni og styrkja með því hringrásarhagkerfi innan SADA miðstöðvarinnar sem hýsir þær.

Samvinnuverkefnið er hið fyrsta sinnar tegundar í Tyrklandi og er starfrækt í samstarfi við UN Women, en UN Women á Íslandi mun vinna að framgangi verkefnisins og hafa eftirlit með því.

Þórdís Kolbrún segir að framlag 66°Norður og UN Women á Íslandi sýni vel hvers fyrirtæki og félagasamtök á Íslandi séu megnug þegar kemur að þróunarsamvinnu.

„Flóttakonurnar hafa flestar misst maka sinn og eru fyrirvinnur heimila sinna. Staða þeirra er bág og réttindi takmörkuð. Þetta verkefni skapar tekjur fyrir áframhaldandi starfsemi SADA miðstöðvarinnar, sem er þeirra eina tekjulind, stuðningsnet og athvarf,“ sagði Þórdís Kolbrún .

„Samvinnuverkefni sem þetta, þar sem stjórnvöld, einkafyrirtæki, frjáls félagasamtök og alþjóðastofnun vinna saman, er nýtt af nálinni og ótrúlega spennandi tækifæri fyrir UN Women á Íslandi,“ segir Stella Samúelsdóttir , framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. „Verkefnið hefur bein áhrif á atvinnutækifæri flóttakvenna, stuðlar að fjárhagslegu sjálfstæði þeirra og þróun hringrásarhagkerfis. Vonandi verður verkefnið hvatning fyrir önnur fyrirtæki til að taka þátt í þróunarsamvinnu- og mannúðarverkefnum og efla um leið sjálfbærni og fjárhagslegt sjálfstæði  kvenna og stúlkna um allan heim,“ segir Stella.

„Fyrirtækið hefur ávallt haft jafnrétti og sjálfbærni í öndvegi og hringrásarkerfið er leiðarljós starfseminnar þar sem við endurnýtum og gefum afgangsefnum framhaldslíf. Í þessu verkefni erum við að styðja við valdeflingu kvenna á flótta og á sama tíma að efla sjálfbærni,“ segir Bjarney Harðardóttir hjá 66°Norður og bætir við að verkefnið hefði ekki verið mögulegt án stuðnings Heimsmarkmiðasjóðsins.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, Aldís Eik Arnarsdóttir og Bjarney Harðardóttir hjá 66°Norður og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.