Sérstök nefnd hefur verið skipuð sem á að gera úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setja fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem veita einstaklingum neytendalán. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Nefndin á að skoða verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana og gera tillögur að breytingum ef þörf krefur. Tillögurnar eiga að bæta og skýra stöðu einstaklinga og heimila og auka ábyrgð aðila á fjármálamarkaði.

Gert er ráð fyrir að nefndin verði í samstarfi við Neytendastofu, talsmann neytenda, umboðsmann skuldara, Fjármálaeftirlitið, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök lánþega og samkeppniseftirlitið og helstu samtök launafólks. Áætlað er að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 15.janúar 2013.