Nokkrir af aðalstyrktaraðilum FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir handtökum stjórnenda sambandsins sem fram fóru í Sviss í gær. Eru þeir grunaðir um mútustarfsemi og peningaþvætti, en meðal hinna handteknu er varaforseti FIFA.

Visa hefur lýst því yfir að það muni hætta sem styrktaraðili FIFA verði ekki gerðar breytingar á yfirstjórn knattspyrnusambandsins, samkvæmt frétt BBC News . Þá hafa Coca-Cola og Adidas einnig lýst yfir áhyggjum sínum.

Sjö yfirstjórendur FIFA voru handteknir í aðgerðunum í gær. Forsetakjör mun fara fram innan sambandsins á morgun, en þar sækist Sepp Blatter, núverandi forseti, eftir endurkjöri en hann er ekki á meðal hinna handteknu.