Framsóknarflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem fram kemur að styrkir sem flokkurinn þáði umfram hámarks styrktarupphæð til stjórnmálaflokka hafi verið ranglega flokkaðir og að flokkurinn hafi upplýst Ríkisendurskoðun um mistökin þegar upp komst um þau.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að Ríkisendurskoðun hugleiddi að kæra Framsóknarflokkinn til lögreglu vegna málsins. Um er að ræða tvo styrki frá Einhamar Seafood um 462.750 kr. annars vegar og Skinney Þinganes um 440.000 kr. hins vegar en hámarks styrktarupphæð er 400.000 kr.

Í tilkynningu Framsóknarflokksins segir að mistökin séu tilkomin vegna þess að að ein flokksdeild hafði fyrir mistök ranglega flokkað einn styrk að upphæð 62.750 kr. og í öðru tilfelli hafði Samband ungra framsóknarmanna fengið 40.000 kr. án þess að eftir því væri tekið innan ársins.