Talsvert flökt hefur verið á gengi íslensku krónunnar á undanförnum misserum. Síðastliðinn föstudag styrktist gengi íslensku krónunnar töluvert gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum. Styrktist krónan m.a. um 4,62% gagnvart svissnenskum franka og um 2,7% gagnvart Bandaríkjadollar.

Við lokun markaða á föstudag höfðu gjaldmiðlarnir veikst sem hér segir gagnvart krónu:

  • Bandaríkjadalur um 2,7% og er kaupgengi hans nú 102,75 krónur.
  • Evran um 1,94% og er kaupgengi hennar nú 120,70 krónur.
  • Breskt sterlingspund um 2,06% og er kaupgengi þess nú 134,86 króna.
  • Japanskt jen um 1,97% og er kaupgengi þess nú 0,9272 krónur.
  • Dönsk króna um 1,94% og er kaupgengi hennar 16,232 krónur.
  • Sænsk króna um 1,74% og er kaupgengi hennar 12,648 krónur.
  • Norsk króna um 1,96% og er kaupgengi hennar 12,979 krónur.
  • Svissneskur franki um 4,62% og er kaupgengi hans 106,1 króna.