Milestone ehf., eignarhaldsfélag þeirra bræðra Karls og Steingríms Wernerssona, var duglegt við að styrkja ýmis málefni og samkvæmt endurskoðunarskýrslu Ernst & Young hf. greiddi félagið út 37,7 milljónir króna í styrki á síðasta ári en þá var staða félagsins orðin mjög alvarleg. Þar vekur meðal annars athygli styrkur til þjóðminjasafns Makedóníu upp á tæpar sjö milljónir króna.

Milestone hafði talsverð umsvif í Makedóníu og má sjálfsagt rekja styrkinn til þess. Samkvæmt skýrslunni styrkti Milestone foreldraráð Kópavogsskóla um 700.000 kr. og sam aupphæð var greidd á árinu 2007.

Einhverjum hjá Milestone hefur verið hlýtt til Kópavogs þar sem Breiðablik fékk 7,5 milljón króna í styrk á síðasta ári og Blikaklúbburinn fékk 7,2 milljónir króna. Hitt liðið í Kópavogi var ekki skilið útundan en HK menn voru styrktir um 7 milljónir króna.

Þá fékk knattspyrnufélagið Valur 2,5 milljón króna í styrk en Karl Wernersson býr sem kunnugt er í Valshverfinu. Sömu augum verður að líta á styrk til hrossaræktarbúsins Fets upp á 4 milljónir króna.